Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Eðlilegt að stöðva þennan þjófnað á auðlindinni

Ekki nema von að fólki sé gjörsamlega ofboðið, enda er um að ræða 12 ára binditíma þegar upp er staðið þar sem kvótanum verði úthlutað til sex ára í senn með sjálfkrafa framlengingu í sex ár og aðeins uppsegjanlegur með sex ára fyrirvara.

Þetta er ekkert annað en rán um hábjartan dag.


mbl.is Tæp 21.000 hafa skrifað undir áskorun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex ára úthlutun á makrílkvóta er í raun 12 ára binditími. Rán um hábjartan dag

Makrílkvótanum úthlutað. MYND: Gunnar Karlsson.

Makrílkvótanum úthlutað.
MYND: Gunnar Karlsson.

Þetta er ekkert annað en rán um hábjartan dag og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra er með nýju frumvarpi um kvóta á makríl, ekki bara að gefa auðlindina til útgerðana með þessum gjörningi að úthluta honum til sex ára, heldur er hann í raun að koma í veg fyrir að nokkur ríkisstjórn geti afturkallað kvótann, því hann sleppir þeirri staðreynd að síðan framlengjast þeir sjálfkrafa á hverju ári og þeim verður eingöngu sagt upp með sex ára fyrirvara.
Þetta þýðir að binditíminn er í raun 12 ár þar sem verði kvótinn innkallaður innan þessara sex ára verður ríkið skaðabótaskylt gagnvart þeim útgerðum sem hafa fengið úthlutun.

Handbendi útgerðargreifana á Alþingi.

Handbendi útgerðargreifana á Alþingi.

Skoðum aðeins hverjir það eru sem leggja til svona landráð gagnvart almenningi í landinu.
Fyrir það fyrsta er það góðvinur og flokksfélagi Sigurðar Inga, Páll Jóhann Pálsson, þingmaður framsóknar sem ítrekað hefur lýst því yfir, bæði í fjölmiðlum og á þingi að hann sitji á alþingi sem hagsmunaaðili útgerðana í landinu.  Hann er ekki í þingsetu fyrir almenning eða til að hugsa um almannahag, því það eru útgerðirnar og auðlindagreifarnir sem hann er að vernda og verja því hann, þó hann sé ekki opinberlega skráður fyrir því, á eignahlut bæði í útgerðarfélaginu Vísir og eins 100% hlut í Marver.  En bátur í eigu hans og konu hans fær úthlutað makrílkvóta upp á rúmar 50 milljónir, sem hann telur ekki vera nema “skít á priki”, ef marka má orð hans sjálfs.
Svona hagmunir eiga ekki heima á alþingi og algjörlega siðlaust þegar svona menn komast til valda eins og sést best á frumvarpi um makrílkvótann.

Huldumaður í ósýnilegri nefnd sem úthlutaði sjálfum sér kvóta fyrir 200 milljónir.

Huldumaður í ósýnilegri nefnd sem úthlutaði sjálfum sér kvóta fyrir 200 milljónir.

Svo er það annar aðili sem virðist vera einhver huldumaður því það finnst ekkert um þann mann á vef alþingis, en samt situr hann í nefnd á vegum þingsins, nefnd sem er ekki skráð á vef alþingis.
Sá maður heitir Davíð Freyr Jónsson og er nefndarmaður í sjávarútvegsnefnd Framsóknarflokksins.  Hann gerir út bát til makrílveiða og hann fær úthlutað makrílkvóta sem er metinn á um 200 milljónir króna, eða helmingi meira en hann hefur nokkurn tíma dregið úr sjó.
Aðrir mega eltast við að finna upplýsingar um hann því ég finn þær ekki með hraðleit á netinu, en það breytir engu í því efni, að þarna er einstaklingur á ferð í nefnd sem úthlutar sjálfum sér makrílkvóta til 12 ára fyrir hundruði milljóna að núvirði í gegnum vinskap sinn við ráðherra sjávarútvegs sem er ekkert annað en viljugur þræll útgerðargreifana og hlýðinn hundur þeirra.

Þetta frumvarp verður að stöðva með öllum þeim ráðum sem almenningur hefur yfir að ráða og eitt það síðasta er að skjóta þessu til Forseta Íslands og óska eftir því að hann synji því að skrifa undir þessa grímulausu rányrkju af auðlind þjóðarinar.  Gangi það ekki eftir og hann samþykkir þessa rányrkju, þá verður almenningur að grípa síðasta hálmstráið og hefja hér byltingu og velta siðblindingjunum úr sessi með valdi.  Það hefur verið gert áður og er hægt að gera það aftur ef almenningur drullast einu sinni til að standa saman.

Þegar þetta er skrifað, hafa safnast 24.080  undirskriftir þar sem Forseti Íslands er hvattur til þess að synja þessum ólögum og nú reynir á þig, ef þú ert ekki búin að skrifa undir þessa áskorun.

Skrifaðu þá undir núna!


Íslensku okurvaxtastefnan er ekkert annað lögbundin rányrkja í skjóli gjörspilltra stjórnvalda

Myndræn lýsing barns.

Myndræn lýsing barns.

Það er fátt í þessu landi jafn ógeðslegt og sú gengdarlausa rányrkja á öllum sviðum þjóðlífsins sem stunduð er í boði gjörspilltra og siðblindra stjórnvalda.
Þeir háu vextir af lánum sem í öllum siðmenntuðum ríkjum mundu ekki flokkast undir neitt annað en okurvexti þykja sjálfsagðir hér á landi og svo er það verðtryggingin á lánum.  Hvergi í hinum siðmenntaða heimi horfir fólk á lánin sín hækka við hverja afborgun af húsnæðislánum sínum og eru dæmi þess að fólk hafi fengið 19 milljónir að láni árið 2008 en í dag stendur það í 34 milljónum.  Þó hefur fólkið borgað 12 milljónir í afborganir á þessum tæpu sjö árum.

Frá bankahruninu 2008 hafa þúsundir fjölskyldna misst allt sitt vegna þessarar siðlausu hegðunar stjórnvalda og lánastofnana, lánastofnana sem voru endurreistar á rústum hrunbankana sem aldrei hafa á nokkurn hátt komið til móts við viðskiptavini sína en látið almenning blæða gengdarlaust fyrir viðskiptin við þá í formi okurvaxta og hárra þjónustugjalda.  Þjónustugjalda sem þekkjast hvergi í heiminum nema á íslandi.

Eitt dæmi um þá ógðeslegu og gjörspilltu stefnu í stjórnkerfinu þar sem fólk er rænt eignum sínum um hábjartan dag er að finna á Facebook og ég ætla að deila því með ykkur og biðja ykkur að hugsa aðeins um hvort ykkur finnist þetta eðlilegt háttarlag bankana, lánastofnana og síðast en ekki síst þeirra gerspilltu stjórnvalda sem ráða ríkjum í landinu?

Í gærkveldi skelltum við Ljómatúni 11 í lás í hinsta sinn eftir ógeðslega erfiðar undafarnar vikur. í þessari íbúð höfum við skapað margar góðar minningar en líka erfiðar, þar eyddum við fyrstu nóttinni okkar sem hjón saman, þar komum við heim sem nýbakaðir foreldrar í tvígang, þar höfum við horft á elsku stelpurnar okkar vaxa og dafna síðan þær komu í heiminn. Við keyptum íbúðina líklegast á allra versta tíma sem hugsast gat. Geir H. Harde sagði í sjónvarpinu „Guð blessi Ísland“ korteri eftir að við tengdum sjónvarpið okkar í nýju íbúðinni. – Íbúðinni, sem við ætluðum okkur að búa í næstu 10-20 árin.
„Guð blessi Ísland“ sagð‘ann karlinn. Þremur mánuðum síðar voru 4 milljónirnar sem við áttum og lögðum í íbúðina gufaðar upp. Bankinn dró lánsloforð sitt til baka þannig að við stóðum frammi fyrir því að þurfa að ganga út á núlli. Bankinn kvatti okkur hins vegar til að fá lánað veð hjá foreldrum okkar því svona yrði þetta ekki í langan tíma. – Í dag er 19 milljón króna lánið sem við tókum orðið tæplega 34 milljónir. Við höfum borgað tæpar 12 millur af láninu á þessum tíma eða frá árinu 2008 .
Við pössuðum ekki inn í 110% leiðina. Íbúðalánasjóðslánið var 109% en lánin sem hvíldu á eignum foreldra okkar féllu ekki þar undir. Foreldrarnir okkar reyndu þá að falla undir 110%leiðina en fengu ekki heldur þar sem þau voru ekki greiðendur af láninu. Sem sagt þeir sem höfðu fengið lánsveð fengu aldrei leiðréttingu. Við höfum barist, við vorum ekki að biðja þessa jakkafataklæddu menn um að gefa okkur neitt við vildum bara að þessi skítur yrði lagaður. Við tókum ekki svona hátt lán og hefðum aldrei gert því við vissum að við myndum ekki ráða við það. Þegar við reyndum sem harðast að fá leiðréttingu og jakkapjakkarnir höfðu gefið okkur í þúsundasta sinn svarið „NEI þið standið í skilum og því gerum við EKKERT“ þá voru felldir niður margir milljarðar á marga einstaklinga. T.d. á eina konu sem eitthvað var viðriðin Moggan, man ekki alveg. Hvernig er hægt að vera svona samviskulaus?
Þetta hefur tekið á andlega og líkamlega ég verð bara að segja það, við höfum fengið ráð frá fólki eins og „gráttu ekki steypu“ – „Vertu fegin ađ vera ekki steinsteypuþræll“ og fleira þess háttar, meira segja hef ég heyrt frá fólki „þið völduð ykkur þetta sjálf“ mikið sem þessi setning gerði mig andskoti reiða og fólk sem heldur virkilega að við og fólk í okkar stöðu hafi valið sér þetta er bara mikið veruleikafyrt og blint á raunveruleikan og má halda þverrifunni á sér lokaðri í návist minni.. En þetta er miklu erfiðara en fólk gerir sér grein fyrir, auðvitað er þetta bara steypa, auðvitað er þetta dauður hlutur en þetta er samt heimilið okkar og átti að vera griðarstaður fjölskyldunnar áfram, griðarstaður barna minna, þau eru ekki dauðir hlutir. Þetta var heimilið sem við hjónin ætluðum okkur að ala börnin okkar upp í. Við höfum tapað peningum, fyrir okkur eru það miklir peningar. Það er mjög óþægilegt að vera komin á „svarta listann“. Það að fá Kalla löggu í heimsókn á kvöldin er heldur ekkert það skemmtilegasta í heimi. En þetta er það sem ríkisstjórnin býður fólkinu í landinu uppá og við „litlu karlarnir“ getum bara ekkert gert í því. Fljótlega eftir að kreppan skall á þá voru afskrifaðir milljarðar á milljarða ofan t.d. fyrir þá Björgúlfsfeðga. Þegar gerðar voru athugasemdir við þær afskriftir var svarið „þetta er peningur sem hvort sem er fæst aldrei greiddur“. Ég pæli í því hvað þessi upphæð hefði getað bjargað mörgum heimilum?
Ég hef aldrei tekið þátt í jafn miklum skrípaleik eins og þegar dómari og co mættu til okkar með hamarinn sinn. Þeir vildu alls ekki koma nema inn í forstofuna. Durturinn frá íbúðalánasjóði var fljótur að bjóða í íbúðina þegar dómari spurði hvort það væru einhver tilboð. Hann bauð heilar 1.000.000 krónur. Hamrinum var lyft, honum barið í einhverja bók og „slegið. – Já íbúðin var keypt á heila MILLJÓN. Hvað gera þeir svo? Selja íbúðina á 25 kúlur og stroka svo út restina af lánunum bara rétt eins og ég stroka út stafsetningavillurnar hér á meðan ég skrifa þetta (þ.e.a.s. þær sem ég sé). Þetta ERU nefnilega ekki peningar, þessir peningar hafa aldrei verið til og munu ekki verða það. Þetta eru aðeins tölur á blaði sem sumir geta leikið sér með að vild og farið illa með fólk eins og þá listir. Nema þá auðvitað fólkið sitt, þar gera þeir góða hluti með tölustafina.
En ekkert breytir því að við hjónin sitjum uppi með 34 milljón króna skuld á bakinu og ekkert heimili.

Þetta er aðeins hluti af færslunni en hana má lesa í heild sinni hérna.

Það sorglega er síðan að stjórnvöld halda því fram að hér sé allt í súmmandi fínu lagi, almenningur hafi það bara skítfínt og hagvöxtur, kaupmáttur og jöfnuður sé í samfélaginu á íslandi á sama tíma og fólk er rænt eignum sínum. Eignum sem það hefur borgað fyrir nánast upp í topp og sumir jafnvel tvisar en skulda samt sem áður þrefaldan höfuðstólinn.  Það er ekki hægt að kalla svona lagað neitt annað en þjófnað því þjófnaður er það hvað sem allir segja og hvað sem illa gefnir og gjörspilltir stjórnmálamenn, hagfræðingar og lögfræðingar reyna að verja það kerfi sem starfar svona.
Lygarnar og hræsnin auk þeirrar siðblindu og afneitunar sem hrjáir þessa stjórnarherra á íslandi er svo viðbjóðsleg að það tekur engu tali.  Þessu fólki þarf að koma frá völdum og það er reyndar furðulegt hvað íslendingar láta yfir sig ganga án þess að sturlast hreinlega og ráðast inn á alþingi og bera þessa drullusokka út í næsta ruslagám og farga þeim.

Skil ekki fólkið í þessu landi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband