Lífeyrisþegar greiða oft fjórfalda skatta og eru skertir að auki
11.5.2015 | 00:17
Mannréttindabrot hafa verið stunduð á lífeyrisþegum hér á landi til fjölda ára og þeir skattlagðir meira og þyngra en nokkur önnur stétt í landinu á síðustu áratugum.
Tekjuskerðingar vegna vinnu eða greiðslu úr lifeyrissjóðum þykir stjórnvöldum hin sjálfsagðasti hlutur að leggja á aldrað og veikt fólk sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og hefur í raun ekkert stéttarfélag til verja sig gegn óréttlætinu.
Það tekur þó steininn úr þegar ráðherrar og þingmenn stíga opinberlega fram og ljúga upp í opið geðið á því fólki sem þarf að lifa við að tekjum þeirra úr lífeyrissjóði sé stolið af því, að stjórnvöld séu búin að afnema skerðingar á lífeyrisþega.
Staðreyndin er nefnilega sú, að fái einstaklingur sem er öryrki greiðslur úr lífeyrissjóð þá skerðast bætur TR um krónu á móti krónu.
Það er staðreynd.
Marínó G. Njálsson vakti athygli á þessu í grein sem hann skrifaði fyrir þremur árum síðan en hefur því miður ekki farið hátt þar sem hann rekur hvernig vinnubrögðin eru og hvað þetta kerfi er flókið og þungt.
Tökum nokkrar stiklur:
Fyrir hartnær áratugi fékk ég það verkefni í vinnunni að greina allar breytur og stikur í lögum um almannatryggingar og reglugerðum sem Tryggingastofnun ríkisins vann eftir. Ástæða var að fyrirtækið sem ég vann hjá var að forrita nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir TR. Ég átti að ljúka þessu af á dagsstund eða svo, þar sem mönnum datt ekki annað í hug en að það færi nú vart meiri tími í verkið. Reyndin varð önnur.
Þegar ég var beðinn um að skila af mér, þar sem nauðsynlegt var að leggja afraksturinn fyrir fund, þá höfðu gott betur en 8 tímar farið í verkið og ástæðan var einföld. Ég hafði þá þegar uppgötvað 239 breytur og stikur sem höfðu áhrif á útgreiðslur úr kerfinu. (Breyta er stærð sem sett er inn einstaklingsbundið (oftast upphæð) eða eftir hópum meðan stika (e. parameter) er ýmist hreinn fasti eða föst tala byggð á útreikningi (oftast einhvers konar hlutfallstala.) Já, 239 breytur eða stikur. Er nema von að fáir, ef nokkrir átta sig á virkni kerfisins.
————————
Margt í almannatryggingakerfinu er sett þar inn af göfugum hug. Þá á ég við barnabætur, makabætur, ekju- eða eknabætur, örorkulífeyrir, örorkustyrkir, ellilífeyrir, tekjutrygging o.s.frv. en svo átta menn sig á því að ríkissjóður stendur ekki undir þessu öllu. Við því er brugðist með tekjutengingum á alla kanta. Slíkar tekjutengingar eru náttúrulega ekkert annað en jaðarskattar eða hreinlega aukaskattheimta á lífeyris- og bótaþega. T.d. borga lífeyrisþegar tvöfaldan fjármagnstekjuskatt á við aðra. Tekjuteningar gera það að verkum að um leið og persónuafslætti lýkur, þá tekur við kerfi, þar sem lífeyrisþegar fá ekki njóta aukinna tekna. Þeir eru hreinlega skattlagðir hátt í 100% af öllum umframtekjum.
————————
Ein er sú skerðing sem ég skil ekki eða á ég að kalla skatt. Það er skerðing vegna fjármagnstekna. Fjármagnstekjur eru taldar sameiginlegar hjónum. Þannig að sé annað lífeyrisþegi, þá skerða fjármagnstekjur hins lífeyrisgreiðslurnar sem nemur 25% af fjármagnstekjunum. Ekki er einu sinni gert ráð fyrir fjármagnstekjuskattinum, sem þýðir þá að 25% af því sem er eftir skattinn skerði tekjurnar. Nei, það er of flókið. Fái hinn aðilinn 100.000 kr. í fjármagnstekjur, þá renna fyrst 20.000 í skatt og síðan dragast 25.000 kr. frá lífeyrinum. Þannig að af 100.000 kr. eru 55.000 kr. eftir. Maki lífeyrisþegar og lífeyrisþegi borga því 45% fjármagnstekjuskatt. Og ég hélt að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri en tekjuskatturinn! Af þessari ástæðu, þá er ódýrara fyrir maka lífeyrisþegar sem er með eigin starfsemi (einyrki), að hafa starfsemina á eigin kennitölu því að öllum líkindum borgar þá viðkomandi ekki nema 42% skatt af hagnaði í staðinn fyrir 45%!
————————
Mannvonskutilfellin eru svo mörg að það mundi æra óstöðugan að telja þau upp. Til mín kom um daginn maður sem heldur úti vefsvæði, þar sem vakin er athygli á mannréttindu lífeyrisþega. Án þess að þekkja sögu hans neitt umfram það sem hann sagði mér á hlaupum, þá virtist mér sem kerfið væri markvisst að brjóta hann niður. Öll sjálfsbjargarviðleitni er laminn til baka af fullri hörku. Honum skal gert ókleift að lifa sjálfstæðu lífi. Þannig er saga margra öryrkja. Hrúgum þeim inn í sambýli, þar sem hægt er að fela þá fyrir umhverfinu. Tölum niður til þeirra á opinberum fundum með því að segja “ástandið getur nú ekki verið svona slæmt”, eins og ég hef heyrt nokkra ráðherra segja. Jú, það er það og líklegast mun verra.
Aftur að mannvonskutilfellunum. Þegar skattar á hátekjufólk voru hækkaðir um 5% sumarið 2009 fengu lífeyrisþegar á sig 27% skattahækkun! Ljóst er hver eru breiðu bökin í samfélaginu! Í liggur við hverjum einustu fjárlögum er bætt við nýrri breytu eða stiku í almannatryggingakerfið. Ekki til að hækka réttindi. Nei, til að klípa af þeim sem minnst hafa! Efnaðir Íslendingar geta alveg greitt 50-60% skatt af tekjum yfir 1 milljón. Þeir eiga a.m.k. auðveldara með það en sá sem er á lífeyri. Nei, það má ekki vegna þess að þessir ríku gætu farið eitthvað annað með peningana sína. Vitiði hvað. Þeir fóru annað með peningana sína meðan skattumhverfið hér var þeim eins hagstætt og hugsast getur, þannig að það getur ekki versnað. Farið hefur betra fé!
————————–
Almannatryggingakerfið á ekki að vera vandamál eða olnbogabarn. Það á að vera verðugt viðfangsefni, þar sem unnið er eftir skýrum markmiðum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að öllum markmiðum verður ekki náð, en séu þau ekki til staðar, þá vitum við ekki hvert við stefnum.
Greinina má lesa í heild með því að smella hérna.
Hver velferðarráðherrann á fætur öðrum stígur inn í embætti og lofa hástöfum að breyta og laga þetta kerfi en hverjar verða efndirnar? Engar.
Nákvæmlega ekki neitt er gert til að laga þetta kerfi og þegar einhver óþægindi eru af því, þá er bara bætt við reglugerðarfargandið og látið gott heita því í ráðherrana huga erum við úrkast. Ónýtir hlutir eða tölur í exelskjali, oftast falsaðar ef eitthvað er.
Við eigum okkur fáa málssvara þrátt fyrir að ÖBÍ sé af og til með máttlausar yfirlýsingar og eitt eða tvö mál í gangi á hverjum tíma þar sem öryrkjar hafa lögsótt ríkið en maður heyrir ekkert af þeim málarekstri og stöðugt finnst manni að í ÖBÍ séu bara puntudúkkur til að halda okkur góðum meðan þar fer fram naglasnyrting og tískutal meðan þær hirða himinhá laun sem þau greiða sér.
Kanski er ég ósanngjarn í garð ÖBÍ en það er helvíti hart að þurfa að lifa árum saman við ofurskattlagningu og þjófnað á lífeyrinum manns án þess að það virðist nokkuð vera að gerast innan þessara samtaka, eins leiðinlegt og það er að segja það.
En hvað sem öllu líður í þessum málum, þá eru það alltaf stjórnmálamennirnir, ráðherrar og þingmenn sem setja lögin sem bera ábyrgðina á því að öryrkjum og ellilífeyrisþegum er haldið föstum í gildru fátæktar og eymdar sem hefur leitt af sér óþarfa aukinn kostnað fyrir samfélagið allt í formi þunglyndis og geðraskana sem eru tilkomnar þegar fólk getur ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut í lífinu annað en að reyna að skrimta út mánuðinn og eiga jafnvel ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum. Að sjálfsögðu dregur það fólk niður og langvarandi ástand getur endað með geðveiki eða dauða og mörg slík tilfelli eru til þó þau séu ekki í umræðunni. Það er nefnilega TABOO að tala um slíkt upphátt.
Að lokum. Getur þessi þjóð einu sinni staðið saman gegn milljónamæringunum sem eiga útgerðirnar í landinu, lífeyrissjóðina, fyrirtækin sem borga skítalaun meðan forstjórarnir borga sér milljónir á mánuði og þingmenn sem eru í raun eign og dyggir varðhundar ofantalina?
Valdið er fólksins ef fólkið vill standa saman og gera eitthvað í því að gera þetta þjóðfélag byggilegt fyrir alla.
Það þarf bara samstöðu og samvinnu í það verkefni, verkefni sem allir ættu að taka þátt í.
Getum við það?
Breytt 23.5.2015 kl. 11:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning